Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4% á milli mánaða í janúar samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs mælist nú 5,2% samanborið við 5,9% hækkun í desember frá sama mánuði árið áður.
Raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. vísitala íbúðaverðs í hlutfalli við vísitölu neysluverðs, lækkaði örlítið á milli mánaða. Árshækkun raunverðs íbúða mælist nú 1,8% samanborið við 2,1% í desember en raunverð íbúða hefur núna hækkað um ríflega 55% frá því í janúar 2013.
Verð fjölbýlis hækkaði um 0,4% og sérbýli um 0,3% milli janúar og desember. Tólf mánaða hækkunartaktur sérbýlis mælist nú um 5,8%, samanborið við 6,3% í desember. Verð fjölbýlis hefur nú hækkað um 4,8% frá janúar í fyrra, en 12 mánaða hækkun mældist í þeim flokki um 5,5% í desember.
Í janúarmánuði var 711 kaupsamningum þinglýst um íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Það er um 26% aukning í fjölda kaupsamninga frá janúar 2018 þegar 563 kaupsamningum var þinglýst.