Hagdeild Íbúðalánasjóðs hefur gefið út skýrsluna Íbúðaþörf 2019-2040.
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
Helstu niðurstöður skýrslunnar eru:
- Á undanförnum árum hefur þörf fyrir íbúðir vaxið meira en sem nemur fjölgun íbúða hér á landi. Talið er að framboð íbúða hafi verið í samræmi við þörf um áramótin 2015–2016 en að síðan þá hafi íbúðum fjölgað minna en sem nemur þörf. Áætlað er að um áramótin 2018–2019 hafi vantað 5.000–8.000 íbúðir til að rúma jafnvægisfjölda heimila miðað við undirliggjandi heimilasamsetningu. Miðað við tilteknar forsendur er útlit fyrir að þessi óuppfyllta íbúðaþörf minnki á næstu árum.
- Þörf fyrir íbúðir hefur vaxið hratt á undanförnum árum vegna mikillar fólksfjölgunar, breyttrar aldurssamsetningar og annarrar lýðfræðilegrar þróunar. Fólksfjölgun hefur verið yfir sögulegu meðaltali undanfarin ár og aldrei mælst jafn mikil og árið 2017. Fjölgun íbúða í umfangsmikilli skammtímaleigu hefur aukið enn íbúðaþörf á undanförnum árum.
- Hagstofa Íslands spáir sveiflu í mannfjöldaþróun á næstu árum, einkum vegna búferlaflutninga. Á næstu fimm árum er því spáð að fjölgun innflytjenda verði áfram mikil en sú fjölgun gangi að nokkru leyti til baka eftir 5–10 ár og að mannfjöldi staðni því um skeið. Það er álitaefni hvernig taka á tillit til þessa við mat á íbúðaþörf.
- Samkvæmt miðspá mannfjöldaspár Hagstofunnar mun landsmönnum fjölga um alls 13% á næstu 20 árum sem er talsvert minni fólksfjölgun en verið hefur undanfarin 20 ár. Fjölgun íbúða þarf hins vegar að vera hlutfallslega meiri en fólksfjölgun vegna annarrar lýðfræðilegrar þróunar og óuppfylltrar íbúðaþarfar.
- Í grunnsviðsmynd íbúðaþarfagreiningarinnar er þörf á fjölgun íbúða metin um 1.830 íbúðir á hverju ári á tímabilinu 2019-2040 til að vinna upp óuppfyllta íbúðaþörf og mæta undirliggjandi fjölgun heimila á tímabilinu. Búist er við því að á árunum 2019–2021 verði byggðar fleiri íbúðir en sem þessu nemur eða 3.300 íbúðir að meðaltali á hverju ári. Af því leiðir að óuppfyllt íbúðaþörf í grunnsviðsmynd A verður um 3.000 íbúðum minni í upphafi árs 2022 en hún var í upphafi yfirstandandi árs. Óuppfyllt íbúðaþörf verður þó ekki horfin að fullu á því ári gangi spá um íbúðauppbyggingu eftir.
- Þarfagreiningin er háð ýmsum forsendum sem eru markaðar af óvissu. Til að meta áhrif þeirrar óvissu á íbúðaþörf eru unnar viðbótarsviðsmyndir. Miðað við háspá mannfjöldaspár Hagstofu Íslands þyrfti íbúðum að fjölga um 2.220 á ári hverju til 2040 en um 1.430 miðað við lágspá mannfjöldaspár. Aðrar sviðsmyndir sýna áhrif mismunandi forsendna um heimilasamsetningu, fjölda íbúða í skammtímaleigu og umfang óuppfylltrar íbúðaþarfar.
- Lýðfræðileg þróun hefur mikil áhrif á hvers konar íbúðum þarf helst að fjölga. Samkvæmt grunnsviðsmynd mun helmingur allrar undirliggjandi fjölgunar heimila til ársins 2040 koma til vegna fjölgunar einstaklingsheimila en einstaklingsheimili eru að jafnaði í minni íbúðum en önnur heimili. Niðurstöður úr viðhorfskönnunum benda til þess að sérstök þörf gæti myndast á þriggja herbergja íbúðum á næstu árum.