Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, staðfesti breytingu á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur þann 18. janúar sl. sem hækkar frítekjumörk húsnæðisbóta. Reglugerðin gildir frá og með 1. janúar 2019, en með þessari breytingu hækka þau viðmið tekna sem leigjendur geta haft áður en þær skerða rétt þeirra til húsnæðisbóta.
Með breytingunni verða frítekjumörk eftirfarandi:
Frítekjumörk 2019 |
||
Fjöldi heimilismanna | á ári | á mánuði |
1 | 3.885.000 | 323.750 |
2 | 5.138.226 | 428.186 |
3 | 6.015.484 | 501.290 |
>4 | 6.516.774 | 543.065 |
Þar sem reglugerðin hefur þegar tekið gildi munu ofangreindar fjárhæðir verða notaðar við útreikning á húsnæðisbótum vegna leigu í janúar 2019 sem greiddar verða 1. febrúar nk.
Almenn afgreiðsla húsnæðisbóta er í höndum skrifstofu Íbúðalánasjóðs að Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki og er opin frá kl. 09:00 – 16:00 alla virka daga. Viðskiptavinir geta hringt í síma 569-6900 eða sent tölvupóst á husbot@ils.is. Einnig er hægt að hafa samband við ráðgjafa sjóðsins að Borgartúni 21, 105 Reykjavík.