Skýrsla um stöðu og þróun húsnæðismála hefur verið lögð fram á Húsnæðisþingi sem fer nú fram á Hilton Reykjavík Nordica. Þetta er í fyrsta sinn sem slík skýrsla er lögð fram en samkvæmt nýsamþykktum breytingum á lögum um húsnæðismál skal leggja fram skýrslu um stöðu og þróun húsnæðismála á Húsnæðisþingi ár hvert.
Nokkrar af helstu niðurstöðum skýrslunnar eru:
Nokkrar af helstu niðurstöðum skýrslunnar eru:
- Íslenskur húsnæðismarkaður hefur einkennst af óstöðugleika undanfarna áratugi. Óstöðugleiki á húsnæðismarkaði á þátt í að stuðla að óöryggi í húsnæðismálum. Miklar verðsveiflur hafa haft skaðleg áhrif á húsnæðismarkaði en þær orsakast aðallega af annars vegar ytri efnahagsaðstæðum og hins vegar sveiflum í uppbyggingu húsnæðis, ásamt skorti á yfirsýn og stefnumótun. Þessar sveiflur bitna mest á lágtekjufólki sem ver stærri hluta tekna sinna í húsnæðisútgjöld en aðrir samfélagshópar.
- Húsnæðisstuðningi stjórnvalda hefur verið breytt á undanförnum árum til að mæta breyttum áskorunum. Stjórnvöld leggja nú aukna áherslu á framboð hagkvæms húsnæðis, bæði til leigu og eignar, og aðgerðir til að auðvelda fólki að stíga yfir þann þröskuld sem felst í því að kaupa fyrstu íbúð. Þó eru tækifæri til að nýta enn betur þá fjármuni sem felast í húsnæðisstuðningi hins opinbera með það að leiðarljósi að auka húsnæðisöryggi landsmanna.
- Skýrari rammi hefur myndast utan um húsnæðismál á undanförnum árum og aðkoma stjórnvalda að húsnæðismálum er nú í auknum mæli byggð á stefnumótun. Markmiðið með stefnumótun í húsnæðismálum er ekki síst að auka stöðugleika. Tækifæri eru til að gera enn betur í þeim efnum og í því samhengi má nefna aðgerðir til að lækka byggingarkostnað og auka uppbyggingu húsnæðis fyrir alla félagshópa.