Mánaðarskýrsla Íbúðalánasjóðs í ágúst er nú komin út. Á meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni að þessu sinni er eftirfarandi:
- Alls voru 905 fyrstu íbúðakaup á öðrum ársfjórðungi 2018. Fyrstu íbúðakaup hafa ekki verið fleiri innan ársfjórðungs síðan að minnsta kosti árið 2008.
- Í júní seldust um 14% íbúða á höfuðborgarsvæðinu yfir ásettu verði sem er 3 prósentustigum meira en í mánuðinum á undan og 4 prósentustigum meira en sem nemur mánaðarlegu meðaltali frá árinu 2012.
- Í júní var miðgildi verðs í útgefnum kaupsamningum um íbúðir á almennum markaði á höfuðborgarsvæðinu 44,5 milljónir króna.
- Munurinn á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni hefur farið minnkandi undanfarin misseri.
- Síðan í maí 2017 hefur sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað samtals 7% meira í verði en fjölbýli.
- Íbúðaviðskiptum þar sem kaupandinn er fyrirtæki hefur farið fækkandi undanfarin misseri.
- Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 2,4% á milli mánaða í júní og hefur ekki lækkað jafn mikið milli mánaða frá því að mælingar hófust.
- Hlutfall vísitölu leiguverðs og launavísitölu hefur nú lækkað í þrjá mánuði í röð en það er þó enn yfir meðaltalinu síðan 2011.
- Undanfarið ár hefur velta í byggingariðnaði aukist um 8,1% að raunvirði og fjöldi starfsmanna á launaskrá í byggingariðnaði aukist um 12%.
- Rekstrarafkoma byggingariðnaðar hefur sveiflast mikið frá aldamótum. Í kreppunni versnaði afkoman til muna en árið 2016 var framlegð af rekstri fyrirtækja í byggingariðnaði orðin meiri en í viðskiptahagkerfinu í heild.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér: Húsnæðismarkaðurinn – ágúst 2018