Bjarg íbúðafélag hefur opnað fyrir skráningu á biðlista vegna hagkvæmra íbúða sem félagið er að reisa með stofnframlögum frá Íbúðalánasjóði og sveitarfélögum. Um er að leiguíbúðir sem leigðar verða út á hagkvæmum kjörum í öruggri langtímaleigu að danskri fyrirmynd.
Íbúðirnar eru fyrir fjölskyldur og einstaklinga á vinnumarkaði sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum og hjá Bjargi fyrir þá sem hafa verið fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB sl. 24 mánuði miðað við úthlutun.
Framkvæmdir eru hafnar á vegum Bjargs á tveimur stöðum innan Reykjavíkur, í Spöng í Grafarvogi og einnig í Úlfarsárdal. Áætlað er að afhending fyrstu íbúða á höfuðborgarsvæðinu verði í júní 2019. Þá áformar félagið umfangsmiklar framkvæmdir á næstu misserum en reiknað er með að um 450 íbúðir verði komnar í byggingu hjá félaginu í lok 2018 og rúmlega þúsund til viðbótar á næstu þremur til fjórum árum. Íbúðir í fyrsta áfanga verða m.a. í Reykjavík, á Akranesi, Akureyri, Þorlákshöfn og í Sandgerði. Þá á félagið í viðræðum við sveitarfélög víðar á landinu.
Nánar er hægt að lesa um tekju- og eignamörk til að leigja íbúð hjá Bjargi og hvernig eigi að skrá sig á biðlista fyrir íbúðunum hér.