Húsnæðismál eru eitt af þeim þremur atriðum sem landsmenn eru líklegastir til að hafa áhyggjur af samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar MMR. Þar voru svarendur beðnir um að tilgreina þau þrjú atriði sem þeir hefðu mestar áhyggjur af og urðu húsnæðismál fyrir valinu hjá 34% svarenda.
Heilbrigðisþjónusta og spilling í fjármálum og/eða stjórnmálum eru einu atriðin sem landsmenn eru líklegri til að hafa áhyggjur af heldur en húsnæðismál. Landsmenn hafa þannig meiri áhyggjur af húsnæðismálum heldur en fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði (31% svarenda völdu þetta atriði), menntun (17% svarenda) og efnahagslegu hruni eða samdrætti (9% svarenda), svo dæmi séu tekin.
Mismiklar áhyggjur eftir félagshópum
Konur eru líklegri en karlar til að hafa áhyggjur af húsnæðismálum. 38% kvenna nefndu húsnæðismál sem eitt af þeim atriðum sem þær hafa áhyggjur af, en 29% karla. Fólk á höfuðborgarsvæðinu er líklegra til að hafa áhyggjur af húsnæðismálum, en 38% fólks á höfuðborgarsvæðinu hefur áhyggjur af húsnæðismálum samanborið við 25% fólks á landsbyggðinni.
Ungt fólk hefur áberandi meiri áhyggjur af húsnæðismálum en þeir sem eldri eru. 55% fólks á aldrinum 18-29 ára nefndu húsnæðismál sem eitt af þeim atriðum sem það hefur mestar áhyggjur af. Hlutfallið er 35% hjá fólki á aldrinum 30-49 ára en um 20% meðal þeirra sem eldri eru. Námsmenn hafa einnig sérstaklega miklar áhyggjur af húsnæðismálum, en 55% námsmanna tilgreindu húsnæðismál sem eitt af þeim atriðum sem þeir hafa mestar áhyggjur af.
49% fólks með undir 400 þúsund í heimilistekjur hafa áhyggjur af húsnæðismálum. Hlutfallið er lægra meðal annarra tekjuhópa, eða 31-33%.
Hafa lagt aukna vinnu í stefnumótun
Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs: „Könnun MMR sýnir að landsmenn hafa áhyggjur af húsnæðismálum. Það kemur ekki á óvart enda má segja að húsnæðismarkaðurinn hafi brugðist landsmönnum nú þegar mikill skortur hefur skapast á húsnæði. Stjórnvöld hafa lagt aukna vinnu í langtímastefnumótun í húsnæðismálum og aðgerðir til að tryggja öllum landsmönnum viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði. Niðurstöður þessarar nýju könnunar sýna að mikilvægt er að leggja áfram mikla áherslu á það verkefni á komandi misserum.“