Um 2.000 nýjar íbúðir verða fullbyggðar á höfuðborgarsvæðinu í ár og annar eins fjöldi á næsta ári samkvæmt nýrri íbúðaspá Samtaka iðnaðarins sem kynnt var á fundi samtakanna á Grand Hótel Reykjavík í gær. Um er að ræða mesta fjölda nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu síðan fyrir hrun og svipaðan fjölda og var byggður árin 2005-2007 að jafnaði. Samtökin hafa einnig unnið íbúðaspá fyrir sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og Norðurland. Þegar öll þessi landsvæði eru tekin saman er útlit fyrir að í ár verði hátt í 3.000 íbúðir byggðar á landsvísu. Til samanburðar voru um 1.800 íbúðir byggðar í fyrra og er því um að ræða verulega fjölgun nýbygginga gangi spáin eftir.
Þetta er ánægjuleg þróun enda hefur undanfarin ár safnast upp verulegur skortur á íbúðum um allt land. Að mati hagdeildar Íbúðalánasjóðs er þörf á að jafnaði um 2.200 nýjum íbúðum á landsvísu á ári hverju til ársins 2040, en allra næstu árin er þörf á fleiri íbúðum á meðan unnið er á þeim uppsafnaða skorti sem myndast hefur undanfarinn hálfan áratug.
Öll sveitarfélög vinni húsnæðisáætlun
Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga voru einnig til umræðu á fundi Samtaka iðnaðarins. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, benti á að sveitarfélög eru enn sem komið er ekki skyldug til að framkvæma húsnæðisáætlanir. Hann sagði mikilvægt að tryggja stöðluð og samræmd vinnubrögð við gerð slíkra áætlana.
Íbúðalánasjóður tekur undir mikilvægi þess að öll sveitarfélög vinni húsnæðisáætlun, meðal annars til að auka yfirsýn yfir framboð húsnæðis á landsvísu. Sjóðurinn hefur haft frumkvæði að því að aðstoða sveitarfélög við gerð húsnæðisáætlana með það að leiðarljósi að þær greiningar sem þar koma fram séu vandaðar og staðlaðar. Áfram verður unnið að því með sveitarfélögum landsins að festa húsnæðisáætlanir í sessi sem stjórntæki sveitarfélaga í húsnæðismálum.
Skorturinn sýnir hvað langtímaáætlanir eru mikilvægar
Sigrún Ásta Magnúsdóttir, deildarstjóri á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs: „Uppbygging nýrra íbúða virðist nú loks vera orðin í takt við þörf en eftir stendur mikill uppsafnaður skortur sem myndast hefur á undanförnum árum. Sú staða sem einkennir markaðinn sýnir hversu mikilvægt er að langtímaáætlanir í húsnæðismálum séu til staðar. Því tökum við undir mikilvægi þess að öll sveitarfélög vinni húsnæðisáætlun til að auka yfirsýn og gagnsæi á húsnæðismarkaði.“