Mánaðarskýrsla Íbúðalánasjóðs í mars er nú komin út. Á meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni að þessu sinni er eftirfarandi:
-
Ásett verð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,0% í janúar sem er meiri hækkun en mánuðina á undan. Ásett verð íbúða í nágrenni höfuðborgarsvæðisins hækkaði um 2,0% í janúar.
-
Íbúðaverð hefur ekki áður mælst hærra í hlutfalli við vísitölu neysluverðs. Í skýrslunni er að finna ítarlega umfjöllun um helstu verðkennitölur á húsnæðismarkaði, þ.e. hlutfall íbúðaverðs gagnvart neysluverði, launum og byggingarvísitölu.
-
Einstaklingar af höfuðborgarsvæðinu eiga um 2.600 íbúðir á landsbyggðinni, og fólk af landsbyggðinni á að sama skapi um 2.600 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.
-
Reykjanesbær og Akureyri eru á meðal þeirra sveitarfélaga sem hafa virkasta leigumarkaðinn þegar fjöldi þinglýstra leigusamninga er settur í samhengi við fjölda íbúða. Reykjavík er nálægt landsmeðaltali í þessu samhengi en hlutfallslega fæstar íbúðir eru í útleigu í Garðabæ, Hornafirði og Snæfellsbæ.
-
Örlítið dró úr vexti nýrra íbúðalána á síðustu tveimur mánuðum nýliðins árs. Hrein ný útlán bankanna jukust um 50% milli fyrri og seinni hluta síðasta árs, en á sama tímabili jukust ný útlán lífeyrissjóða um 12% sé ekki tekið tillit til uppgreiðslna.
-
Ísland var í fjórða sæti meðal Norðurlanda þegar kemur að útistandandi íbúðalánum á mann í evrum talið árið 2016. Hins vegar var hlutfall þeirra sem eiga íbúð með áhvílandi láni hærra á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum á því ári.
-
Íbúðum fjölgaði um 1.759 í fyrra og var Mosfellsbær það sveitarfélag þar sem íbúðum fjölgaði mest. Meðalfjöldi íbúa á hverja íbúð hér á landi jókst talsvert í fyrra og hefur hann nú farið vaxandi allt frá árinu 2011.
-
Ítarleg umfjöllun um stöðu eignasafns Íbúðalánasjóðs er á sínum stað.
Skýrsluna má lesa í heild sinni hér. Húsnæðismarkaðurinn – mars 2018