Um 300 manns sitja nú húsnæðisþing í Reykjavík.
Rætt er á þinginu með hvaða hætti megi bregðast við þeirri erfiðu stöðu sem er
á húsnæðismarkaði. Það eru velferðarráðuneytið og Íbúðalánasjóður sem boða til
þingsins og Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra sagði vonir
standa til að krísan leysist á næstu tveimur árum. Meiri fólksfjölgun en spáð
var setur þó nokkurn strik í reikninginn. Landsmönnum fjölgaði jafnmikið á
fyrri helmingi þessa árs og allt árið 2016. Það er því enn meiri þörf fyrir
fjölgun íbúða en spáð hafði verið.
Í erindi sínu sagði Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, aðgengi að viðunandi húsnæði vera mannréttindi sem íslensk stjórnvöld hafi skuldbundið sig til að tryggja samkvæmt lögum og alþjóðlegum samningum. Alþjóðlegar mælingar bendi hins vegar til þess að Íslendingar standi öðrum þjóðum að baki þegar kemur að aðgengi að húsnæði á viðunandi kjörum og það sé mikið áhyggjuefni.
Hermann sagði húsnæðisstuðning hins opinbera vera
fjölþættan en hann felst m.a. í bótagreiðslum, stofnframlögum, niðurgreiðslu á
leigu og niðurgreiðslu á lánum. „Þrátt fyrir mikinn vanda á húsnæðismarkaði er
húsnæðisstuðningur hins opinbera undir meðaltali síðustu 15 ára, sé miðað við
hlutfall af landsframleiðslu,“ sagði Hermann. „Í ár renna 23 milljarðar í
húsnæðisstuðning og er meirihlutinn í formi húsnæðisbóta, vaxtabóta og
stofnframlaga. Undanfarin 15 ár hefur hið opinbera varið að meðaltali sem
samsvarar 1,1% af landsframleiðslu hvers árs í stuðning við þá sem eiga eða
leigja húsnæði. Til að ná þessu hlutfalli þyrfti húsnæðisstuðningur að vera um
5 milljörðum króna meiri í ár heldur en gert er ráð fyrir.“
70% vaxtabóta til einstæðinga fara til fólks í efri helmingi tekjudreifingar
Hermann sagði tækifæri vera til staðar til að gera húsnæðisstuðning hins opinbera skilvirkari. 70% þeirra vaxtabóta sem renna til einstæðinga fara til fólks í efri helmingi tekjudreifingar einstæðinga. „Það er vert að huga að því hvort húsnæðisstuðningi megi í auknum mæli beina til þeirra sem mest þurfa á honum að halda. Þá má nefna að margir leigjendur sækja ekki um húsnæðisbætur þrátt fyrir að eiga rétt á þeim,“ sagði Hermann og bætti við að frá og með áramótum muni Íbúðalánasjóður annast greiðslu húsnæðisbóta og að mati sjóðsins eru tækifæri til að efla meðvitund leigjenda um réttindi þeirra á húsnæðisbótum og öðrum húsnæðisstuðningi.
Brýnt að bæta upplýsingar um markaðinn
Hermann sagði að fyrir marga væru íbúðakaup stærsta fjárfesting lífsins.
„Samanlagt virði íbúða almennings er meira heldur en samanlagður
lífeyrissparnaður landsmanna. Verðsveiflur á fasteignamarkaði hafa því mikil
áhrif á fjárhagslega stöðu þeirra 70% landsmanna sem búa í eigin íbúð. Það er
meðal annars af þessum sökum sem mikilvægt er að tryggja stöðugleika á
fasteignamarkaði.“
Undanfarin ár hefur fjölgun íbúða verið mun minni en sem nemur þörf á nýjum íbúðum. Útlit er fyrir að betra jafnvægi náist smám saman næstu árin, en það er þó háð mikilli óvissu. Hermann sagði því mikilvægt að stjórnvöld og almenningur hafi heildstætt yfirlit yfir húsnæðismarkaðinn, meðal annars hvað varðar uppbyggingu íbúða, til að stuðla að því að markaðurinn sé stöðugur og fyrirsjáanlegur.