Vegna athugunar Fjármálaeftirlitsins (FME) á útlánum Íbúðalánasjóðs til kaupa á leiguíbúðum vill Íbúðalánasjóður skýra frá því að sjóðurinn hefur þegar breytt verklagi sínu við slíkar lánsákvarðanir og hafði gert það nokkru áður en athugun FME hófst. Nú er ávallt gerð ófrávíkjanleg krafa um að í samþykktum og í framkvæmd komi fram öll þau atriði sem áskilin eru samkvæmt reglugerð. Í kjölfar ábendinga FME hefur Íbúðalánasjóður ennfremur farið fram á það við ráðuneyti húsnæðismála að reglum um slík lán verði breytt en í ljósi ábendinganna er sjóðurinn sammála FME um að reglurnar séu ekki nægilega skýrar. Afar mikilvægt er að fullt gegnsæi og traust ríki um lánsákvarðanir Íbúðalánasjóðs í ljósi þess viðkvæma hlutverks sem sjóðurinn gegnir við veitingu félagslegra lána og stofnframlaga til byggingar og reksturs húsnæðis fyrir tekjulægri hópa í samfélaginu svo þeir geti búið við nauðsynlegt húsnæðisöryggi.
Skrifað þann 29.09.2017