Mánaðarskýrsla Íbúðalánasjóðs hefur nú verið uppfærð frá þeirri útgáfu sem gefin var út fimmtudaginn 7. september. Uppfærslan felur í sér leiðréttingu í umfjöllun um skuldir heimilanna.
Í fyrri útgáfunni urðu þau mistök að einungis var horft til skulda heimilanna við bankakerfið (innlánsstofnanir) og lífeyrissjóði. Í meðfylgjandi útgáfu hefur hins vegar verið tekið mið af heildarútlánum fjármálastofnana til heimila alls.
Ef horft er til innlendra fjármálastofnana alls kemur fram, líkt og með innlánsstofnanir og lífeyrissjóði eina og sér, að árleg aukning í skuldastöðu heimilanna hefur ekki mælst hærri að raunvirði en nú er frá því í lok árs 2008. Í raun var í byrjun þessa árs í fyrsta skipti frá hruni sem heildarútlán heimilanna hafa vaxið að raunvirði milli ára sé horft til 3ja mánaða hlaupandi meðaltals.
Heildarskuldir heimilanna voru í lok júlí 2,5% hærri að raunvirði en á sama tíma 2016. Sá árstaktur hefur verið nokkuð stigvaxandi uppá við frá haustmánuðum 2015 með nær samfelldri vaxtaraukningu milli mánaða.
Hér má nálgast uppfært eintak af mánaðarskýrslunni