Færri fasteignir seldust á höfuðborgarsvæðinu í sumar en í fyrrasumar. Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands var velta á fasteignamarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu á nýliðnu sumri – nánar tiltekið í júní, júlí og ágúst - 17,3% meiri en á sama tíma í fyrra. Það segir þó ekki alla söguna. Þeir kaupsamningar sem standa að baki þessari veltu voru 4% færri í sumar en á sama tíma í fyrra. Meðalupphæð hvers kaupsamnings var þar með 22% hærri. Fækkun kaupsamninga var sérstaklega áberandi í ágúst. 14,4% færri kaupsamningar voru gerðir í nýliðnum ágústmánuði en í sama mánuði í fyrra og veltan var 4,9% minni.
Vísbendingar af fasteignamarkaðnum í sumar hafa verið á þá leið að ákveðinnar kólnunar sé að gæta eftir mjög miklar verðhækkanir á fyrri hluta þessa árs. Framboð húsnæðis á sölusíðum hefur aukist og 12 mánaða hækkunartaktur vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði úr 24% í maí í 19% í júlí. Nýbirtar tölur Þjóðskrár eru á sömu leið. Þó verð hafi vissulega hækkað mikið milli ára virðist sem viðskiptum hafi fækkað.
Athygli vekur að
kaupsamningum fækkar einnig á milli sumra á sumum svæðum utan
höfuðborgarsvæðisins. Þannig voru 17% færri kaupsamningar á Suðurnesjum í sumar
heldur en á sama tíma í fyrra. Kaupsamningum fjölgaði hins vegar um 18% á Árborgarsvæðinu
og 26% á Vestfjörðum. Þá var mikil fjölgun kaupsamninga í Mosfellsbæ, ef til
vill vegna talsverðs framboðs af nýjum íbúðum þar í bæ.
Vísitala íbúðaverðs fyrir ágúst verður birt seinna í þessum mánuði og verður spennandi að sjá hvort áfram hægi á verðhækkunum. Ekki má lesa of mikið í einfalt meðaltal kaupsamninga en það vísar þó í sömu átt og aðrar vísbendingar af fasteignamarkaðnum í sumar – að farið sé að hægja á verðhækkunum.