Um 100 manns í gær á fund sem haldinn var fyrir fyrstu kaupendur hjá Íbúðalánasjóði. Þar var m.a. fjallað um ný lög sem eiga að gera fyrstu kaupendum auðveldar fyrir með því að nota skattfrjálsan séreignarsparnað.
Á fundinum fór Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs, yfir það hverjum þessi nýi húsnæðisstuðningur myndi helst gagnast. Hámarksupphæð sem einstaklingur getur safnað á ári með þessu nýja úrræði er 500 þúsund kr. en til að geta ná þeirri upphæð þurfa mánaðarlaunin að vera yfir 694.444 kr. Tveir aðilar geta nýtt sín einstaklingsbundnu réttindi sameiginlega og nær úrræðið til tíu ára tímabils sem hefst um leið og einstaklingur virkjar leiðina.
Una sagði nokkuð ljóst að ráðstöfun séreignar ein og sér dugi ekki þeim tekjulægstu. Sem dæmi þá nái einstaklingur með 200 þúsund kr. í mánaðarlaun aðeins að safna sér 1,44 milljónum kr. á þessum tíu árum. Miðað við 20% eiginfjárhlutfall þá sé kaupgetan í lok tímabilsins aðeins 7,2 milljónir. Þeir sem fullnýta heimildina ná að safna sér 5 milljónum á sama tíma og hafi kaupgetu upp á 25 milljónir. Margir munu því verða að leggja reglubundið í annan sparnað samhliða söfnun á séreignasparnaði svo mögulegt sé að hækka kaupgetu í lok söfnunartímabilsins.
Birta Austmann Bjarnadóttir, lögfræðingur á viðskiptasviði ÍLS, sagði frá því að samkvæmt nýlegri könnun væri séreignarsparnaður minnst nýttur af tekjulægsta hópnum, hvort sem það væri til lífeyrissparnaðar eða til húsnæðis. Eftir því sem tekjur hækkuðu nýttu fleiri sér úrræðið. 24% fólks með tekjur innan við 400 þúsund kr. á mánuði nýti sér séreignarsparnað til greiðslu inn á húsnæðislán eða til sparnaðar fyrir húsnæði samanborið við 54% þeirra sem eru með tekjur yfir 1.250 þúsund kr. á mánuði.
Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs: „Þessi nýju lög gagnast best þeim sem sjá fram á að komast fljótlega inn á húsnæðismarkaðinn og munu þá geta nýtt skattfrjálsan séreignarsparnað til að greiða inn á höfuðstól eða fara blandaða leið og lækka mánaðarlegar afborganir. Það er ólíklegt að sparnaðarleiðin dugi ein og sér til að koma fólki inn á markaðinn, sérstaklega þeim sem eru með lágar tekjur, þar sem það tekur tíma að safna fyrir útborgun. Við viljum auðvelda fólki sem á ekki nægt eigið fé að komast inn á húsnæðismarkaðinn en jafnframt þurfum við að búa til heilbrigt hvatakerfi til sparnaðar. Því miður er það svo að stór hluti fólks sem hyggst kaupa íbúð, eða tæp 40%, er ekki að spara markvisst. Aðstæður þeirra sem eru á leigumarkaði bjóða oft ekki upp á mikinn sparnað og það þarf að stuðla að öruggari leigumarkaði. Nýleg könnun Íbúðalánasjóðs leiddi í ljós að ein aðalástæða þess að fólk hyggst vera áfram á leigumarkaði er sú að það hefur ekki efni á því að kaupa. Með því að auðvelda fólki að leggja fyrir, og með nýjum húsnæðissáttmála ríkisstjórnarinnar sem hefur það m.a. að markmiði að skoða úrræði fyrir lægri tekjuhópa sem ráða ekki við eiginfjárhlutfall fasteignakaupa, verður vonandi hægt að auðvelda tekjulágum að taka skrefið inn á húsnæðismarkaðinn.“
Nánar um húsnæðisstuðninginn:
- Í boði eru þrjár leiðir: Sparnaðarleið, þar sem safnað er fyrir útborgun, höfuðstólsleið, þar sem reglulega er borgað inn á höfuðstól, og loks blönduð leið.
- Mögulegt er að nýta skattfrjálsan séreignarsparnað í 10 ár og hefst tímabilið þegar leiðin er virkjuð. Hægt er að óska eftir því að hætta greiðslum hvenær sem er með því að senda inn rafræna uppsögn til ríkisskattstjóra.
- Heimild til að nýta séreignarsparnað gildir í samfellt 10 ár og er ekki bundin við ákveðna íbúð. Þannig er mögulegt að skipta um húsnæði á hinu 10 ára tímabili og ráðstafa þá séreignarsparnaði inn á lán sem tekin eru vegna hins nýja húsnæðis.
- Séreignarsparnaður lækkar sem nemur iðgjöldum þess tímabils sem úrræðið er notað, ásamt vöxtum sem annars hefðu safnast á líftíma sparnaðarins. Útgreiðslur við starfslok verða því lægri en ef úrræðið hefði ekki verið nýtt. Einstaklingur færir þannig sparnaðinn af einu formi yfir á annað; úr séreignarsparnaði yfir í eigin íbúð.
Mbl.is - Í góðum málum sem eiga fasteign
Visir.is -Nýtt úrræði til fyrstu íbúðarkaupa gagnast tekjuháum mest
Frekari upplýsingar er hægt að finna á ils.is