93% landsmanna telja óhagstætt að leigja íbúðarhúsnæði á Íslandi en hlutfallið var rúm 55% árið 2011. Niðurstöður nýrrar viðhorfskönnunar Íbúðalánasjóðs um stöðu húsnæðismála voru kynntar á fjölmennum fundi sjóðsins í dag. „Það er augljóst að hagur leigjenda er að versna. Hlutfall fólks á leigumarkaðnum hefur þó haldist svipað því þótt hann sé óhagkvæmur þá hefur fólk ekki annarra kosta völ en að vera þar áfram,“ segir Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði.
Una sagði á fundinum að könnunin hefði jafnframt leitt í ljós að fólk gæti lagt meiri pening fyrir en áður. Tæp 62% sögðust nú ná að safna talsverðu eða svolitlu sparifé samanborið við tæp 42% árið 2011, en leigjendur gætu síður safnað en eigendur. Þrátt fyrir að fleiri gætu lagt fyrir væri staðan erfið. „Það hefur tekist nokkuð vel að rétta úr kútnum á síðustu árum sem er í takt við aukinn kaupmátt heimilanna og efnahagsbata í þjóðfélaginu en það er athyglisvert að velta fyrir sér hvers vegna fólk getur ekki keypt húsnæði. Aukinn sparnaður virðist ekki duga því fasteignaverðið hefur hækkað þeim mun meir.“
Eftirspurn tók fram úr framboði áramóti 2012-13
Á síðasta ári hækkaði verð á fjölbýli um 23% á höfuðborgarsvæðinu og leiguverðsvísitalan hækkaði um 13% á sama svæði. Á sama tíma hækkuðu laun á landsvísu um 5%, skv. launavísitölu Hagstofunnar. Lítið framboð fasteigna skýrir að stórum hluta skarpa hækkun fasteignaverðs en aukning íbúða hefur ekki haldið í við mannfjöldaþróun. Umframframboð var á fasteignum fyrir hrun en samkvæmt hagdeild Íbúðalánasjóðs voru þær eignir að líkindum komnar að fullu í notkun um áramótin 2012-2013 og í kjölfarið fór skortur að gera vart við sig.
Una sagði frá því að í lok könnunarinnar hefði fólk verið spurt hvers vegna það væri að leigja. Nær eingöngu tvær ástæður voru gefnar upp: Fólk hafði ekki efni á að kaupa eða það komst ekki í gegnum greiðslumat. Hún sagði að þær ástæður sem gefnar voru upp í svipaðri könnun sem Íbúðalánasjóður lét gera árin 2011 og 2013 eigi ekki lengur við og hafi ekki heyrst í könnuninni nú: Að óvissa væri á húsnæðismarkaði eða í þjóðfélaginu, það væri ódýrara að leigja, eða fólk væri búið að tapa miklu fé í núverandi eða fyrra húsnæði. „Á þessum tíma höfðu margir brennt sig á að eiga húsnæði og voru ekki tilbúnir að skuldbinda sig á ný. Það virðist hafa breyst og fólk vill skuldbinda sig aftur. Það kemur ekki á óvart í ljósi þess hve fólk upplifir mun meira húsnæðisöryggi ef það býr í eigin húsnæði, eins og fram kemur í könnuninni.“