Mikið hefur verið rætt undanfarið um ástandið á húsnæðismarkaði, þar sem framboðsskortur á íbúðarhúsnæði hefur skapað hálfgert ófremdarástand og ýtt undir mikla hækkun húsnæðisverðs.
Til þess að byggðar séu íbúðir í samræmi við þörf er mikilvægt að upplýsingar um ástand markaðarins komi skýrt fram og endurspeglist í því framboði sem birtist. Undanfarin ár hefur mikið verið kallað eftir því að byggðar séu minni og hagkvæmari íbúðir en þeirri þörf hefur ekki verið mætt sem sýnir að nauðsynlegt er að bæta áætlanagerð til þess að framboð og eftirspurn eftir húsnæði spili betur saman.
Mikilvægt er að framkvæmd sé víðtæk greining á áætlaðri þörf fyrir húsnæði á komandi árum og tryggt að fjölgun íbúðarhúsnæðis sé í takt við spár um mannfjöldaaukningu og breytta fjölskyldugerð. Með þeim hætti er stöðugleiki í húsnæðismálum tryggður og gengið úr skugga um að allir hafi aðgang að öruggu, húsnæði við hæfi. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga miða að því að slíkar greining fari fram með samræmdum hætti um land allt. Upplýsingaflæði um stöðu húsnæðismála er lykilþáttur í því að stuðla að stöðugleika og sjá til þess að framboð húsnæðis mæti eftirspurn.
Íbúðalánasjóður hefur nú fengið það verkefni að aðstoða sveitarfélögin við gerð húsnæðisáætlana en tilgangurinn með þeim er að draga fram mynd af því hver staðan er í hverju sveitarfélagi fyrir sig, greina framboð og eftirspurn eftir margvíslegum húsnæðisformum og setja fram áætlun um hvernig sveitarfélagið ætlar að mæta húsnæðisþörf heimila, bæði til lengri og skemmri tíma. Eitt megin markmiðið með gerð húsnæðisáætlana sveitarfélaga er að bæta upplýsingar um stöðu húsnæðismála um land allt og sjá til þess að við lendum ekki aftur í ástandi þar sem ekki eru byggðar íbúðir í samræmi við þörf.
Í grein hagdeildar Íbúðalánasjóðs
Heimild: Seðlabanki Íslands
Mikilvægt er að læra af mistökum sem gerð voru í síðustu uppsveiflu og eru betri áætlanir lykilþáttur í því að skapa stöðugleika í húsnæðismálum. Öruggt húsnæði er ein af grunnstoðum velferðarsamfélags sem okkar. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði er ein stærsta ákvörðun hvers einstaklings eða fjölskyldu á lífsleiðinni og oftar en ekki er stór hluti af sparnaði heimila geymdur í steinsteypu. Miklar sveiflur á húsnæðismarkaði eru því heimilum í landinu áhyggjuefni og er mikilvægt að leggja allt kapp á að stuðla að stöðugleika á þeim markaði.
Mikilvægt er að stefnumótun húsnæðismála hjá sveitarfélögum sé í höndum þeirra þar sem þau þekkja best stöðuna í sínu sveitarfélagi ásamt því sem uppbygging innviða þarf að vera í samræmi við uppbyggingu húsnæðis. Um er að ræða samstarfsverkefni Íbúðalánasjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga en í lögum um húsnæðismál er Íbúðalánasjóði falið að stuðla að skipulagi húsnæðismála sem auki möguleika fólks á að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Sveitarfélög eru því hvött til þess að greina stöðu húsnæðismála innan sinna marka og setja fram áætlun um hvernig þeim málum skuli háttað.
Starfsmenn Íbúðalánasjóðs ásamt fulltrúa frá Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga hafa á undanförnum vikum fundað með sveitarstjórnarmönnum víðsvegar um landið í þeim tilgangi að kynna gerð húsnæðisáætlana og eru áætlaðir fleiri fundir á komandi vikum. Íbúðalánasjóður mun aðstoða sveitarfélögin eftir bestu getu við gerð húsnæðisáætlana og vonast er til þess að í lok árs verði komnar fram samræmdar húsnæðisáætlanir fyrir flest sveitarfélög á landinu til þess að varpa ljósi á stöðu húsnæðismála. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að sambærilegt ástand og nú ríkir á húsnæðismarkaði endurtaki sig.
Upplýsingar eru til alls fyrst og haldbær gögn um stöðu mála og markmið sveitarfélaga í húsnæðismálum leggja grunninn að bættri framtíðarsýn í húsnæðismálum.
Fyrirvari