Talsvert hefur verið rætt upp á síðkastið um framboðsskort á fasteignum og þær afleiðingar sem það kann að hafa í för með sér þegar eftirspurnin eftir fasteignum verður meiri en framboðið. Verðið þrýstist upp við þessar aðstæður og erfitt getur reynst fyrir fólk að eignast húsnæði. Til marks um þetta sýna tölur frá Hagstofunni að fjöldi fólks á þrítugsaldri sem búsett er í foreldrahúsum hefur aukist um 45% á síðastliðnum áratug. Þetta er að miklu leyti vegna skorts á húsnæði sem hentar til fyrstu kaupa, bæði hvað varðar stærð íbúða og verð.
Þegar skoðað er nánar
hvers konar íbúðir hafa verið að koma inn á markaðinn undanfarin ár má sjá að
það eru ef til vill ekki íbúðir af þeirri stærðargráðu sem henta þeim hóp
sem þarf mest á húsnæði að halda, þ.e.
ungir og tekjulágir einstaklingar. Myndin hér að neðan sýnir hvernig
stærðardreifing nýrra fasteigna hefur verið á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2010.
Sérstaka athygli vekur að hlutfall smærri íbúða hefur farið minnkandi á allra síðustu árum. Árið 2010 var tæplega helmingur nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu undir 100 fm. á stærð en á síðasta ári var það hlutfall komið niður í tæplega 30%. Þetta skýtur mjög skökku við þar sem mikið er talað um þörfina fyrir minna húsnæði. Fasteignir eru ódýrari eftir því sem þær eru minni, auk þess sem þannig má koma fleiri íbúðum fyrir þegar um takmarkað lóðaframboð er að ræða.
Hagdeild Íbúðalánasjóðs telur mikilvægt að nýtt framboð húsnæðis á markaði taki mið af þeirri þörf sem nú er til staðar og að byggðar verði fleiri og smærri einingar í stað stærri eininga eins og verið hefur.