Brugðist við bráðum húsnæðisvanda stórra hópa:
- Yfir 500 leiguheimili rísa á næstunni en það eru ódýrar leiguíbúðir ætlaðar tekjulágum og öðrum hópum
- Framkvæmdirnar njóta stofnframlaga ríkis og sveitarfélaga
- Sótt var um stofnframlög fyrir ríflega 1,3 milljarða í síðari úthlutun 2016 en 700 milljónir eru í boði. 2 milljörðum var ráðstafað í fyrri úthlutun.
- Um er að ræða viðbrögð ríkisins við háum húsnæðiskostnaði og skorti á hagkvæmum íbúðum á markaðnum
Sótt var um stofnframlög til uppbyggingar á 239 hagkvæmum leiguheimilum til Íbúðalánasjóðs vegna síðari úthlutunar ársins 2016 en umsóknarfrestur rann út 30. janúar sl. Alls er sótt um stofnframlag fyrir ríflega 1,3 milljarða kr. en 700 milljónum kr. verður úthlutað að þessu sinni. Áður hafði Íbúðalánasjóður úthlutað 2 milljörðum kr. Ríki og sveitarfélög leggja bæði til stofnframlög til íbúðabygginganna, samtals 30%, sem þýðir að íbúðaframkvæmdir fyrir í kringum 10 milljarða kr. fara af stað í kjölfar þessara tveggja úthlutana.
Í umsóknunum er fyrirhugað að byggja 100 íbúðir fyrir námsmenn, 44 félagslegar íbúðir sveitarfélaga, 12 íbúðir til byggingar sértækra búsetuúrræða fyrir fatlaða, 12 íbúðir fyrir öryrkja og 71 íbúð ætlaða leigjendum undir tekju- og eignamörkum.
Sveitarfélögin sem sækja um stofnframlag í þessari úthlutun eru Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur, Seltjarnarnesbær, Sveitarfélagið Skagafjörður, Ísafjarðarbær og Mýrdalshreppur. Sótt er um stofnframlag til 217 íbúða á höfuðborgarsvæðinu, 2 á Norðurlandi eystra, 8 á Norðurlandi vestra, 1 á Suðurlandi og 11 á Vestfjörðum.
Í fyrri úthlutun Íbúðalánasjóðs í janúar voru samþykktar umsóknir um stofnframlög til uppbyggingar á 385 nýjum leiguheimilum í 11 sveitarfélögum fyrir alls um 2 milljarða króna. Alls mun því sjóðurinn á skömmum tíma úthluta um 2,7 milljörðum króna til uppbyggingar á ríflega 500 hagkvæmum íbúðum sem rísa munu víðsvegar um landið á næstunni.
Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs: „Líkt og hagdeild Íbúðalánasjóðs hefur bent á þá er vandinn á húsnæðismarkaðnum að stóru leyti framboðsskortur og það er því fagnaðarefni að svo mikil eftirspurn sé eftir stofnframlögum til að byggja ódýrar leiguíbúðir. Stjórnvöld munu setja verulega fjármuni í að byggja upp þennan nýja valkost sem er ekki félagslegt húsnæði heldur ódýrt húsnæðiskerfi að danskri fyrirmynd og við köllum Leiguheimili. Ég tel að þeir stóru hópar fólks sem eru að kljást við allt of háan húsnæðiskostnað fagni því að heyra að fjöldi íbúða sé nú á leið á markað þar sem leiga verður að líkindum fjórðungi lægri en algeng markaðsleiga. Það styttist óðum í þessar íbúðir og ástæða þess að hægt verður að hafa leiguna svona mikið lægri eru þessu ríflegu stofnframlög ríkis og sveitarfélaga.“
---
Nánar um leiguheimili:
Hvað eru stofnframlög?
Síðastliðið haust samþykkti Alþingi lög um almennar íbúðir. Markmið þeirra er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum við upphaf leigu, með því að stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda.
Stofnframlög eru veitt til byggingar og kaupa á almennum íbúðum, svokölluðum Leiguheimilum, til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða og fatlaða. Stofnframlög ríkisins nema 18% af stofnvirði almennrar íbúðar.
Sérstök áhersla er lögð á nýbyggingar, fjölgun leiguíbúða og íbúðir á svæðum þar sem þörf er fyrir leiguíbúðir fyrir leigjendur undir tekju- og eignamörkum.
Hverjir geta sótt um stofnframlög?
Húsnæðissjálfseignarstofnanir, sveitarfélög og lögaðilar í eigu þeirra og lögaðilar sem störfuðu við gildistöku laga um almennar íbúðir og uppfylltu skilyrði til að fá lán.
---
Nánari upplýsingar á ils.is og leiguheimili.ils.is