Íbúðirnar verða svokölluð Leiguheimili og byggja á nýjum húsnæðislögum um almennar íbúðir
- Leiguheimilin verða 20-30% ódýrari en leiguíbúðir á almennum markaði. Íbúðafélögin munu leigja fólki með og undir meðaltekjum íbúðirnar til langs tíma.
- Nýtt 45 m2 Leiguheimili á vegum ASÍ og BSRB gæti kostað um 100 þús. á mán. eða aðeins 69 þús. eftir húsnæðisbætur. Bylting fyrir fólk með meðaltekjur og á leigumarkaði.
- Leiguheimiliskerfið byggir á danskri fyrirmynd sem margir Íslendingar þekkja
Reist verða allt að 2.300 svokölluð Leiguheimili á næstu fjórum árum í nýju almennu íbúðakerfi sem nú er verið að taka upp hér á landi og byggir á danskri fyrirmynd. Að þeim tíma loknum verður metin þörf á áframhaldandi uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis. Húsnæðissjálfseignarstofnanir, sveitarfélög og lögaðilar í eigu þeirra auk lögaðila sem uppfylltu skilyrði til að fá félagsleg leiguíbúðalán Íbúðalánasjóðs munu geta reist ódýrar leiguíbúðir með 30% stofnframlagi frá ríki og sveitarfélögum og leigt þær út í langtímaleigu á verði sem er 20-30% lægra en markaðsverð á leigumarkaðnum í dag.
Íbúðalánasjóður stóð fyrir kynningu á stuðningi til byggingaraðila Leiguheimila á Grand hóteli í morgun og var fullt út úr dyrum á fundinum. Í ávarpi Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra kom m.a. fram að stuðningur ríkisins verður 18% en sveitarfélaga 12% en með honum fylgja skilyrði um að íbúðirnar skuli leigja út til fólks með meðaltekjur og undir. Kerfið er ekki hluti af félagslega húsnæðiskerfinu en lægri mánaðargreiðslur munu gera íbúum Leiguheimila kleift að safna fyrir innborgun á íbúð og einnig verða hagstæður valkostur fyrir fólk til langs tíma á leigumarkaði. Almenna íbúðafélagið, sem stofnað er af ASÍ og BSRB, er á meðal þeirra sem hyggjast byggja Leiguheimili í almenna íbúðakerfinu. Miðað við áætlað fermetraverð þá gæti 45 fm Leiguheimili á vegum ASÍ kostað um 100 þús. á mán. eða aðeins 69 þús. eftir greiðslu húsnæðisbóta. Slíkt leiguverð verður bylting fyrir fólk með meðaltekjur og undir á leigumarkaði.
Í Danmörku kallast þetta kerfi Almene boliger og er íbúðarfélögum gert kleift að leigja dönskum almenningi hagstætt húsnæði með stuðningi í formi niðurfelldrar lóðarleigu og hagstæðrar fjármögnunar danska ríkisins. Þessum nýja valkosti á íslenska húsnæðismarkaðnum var komið á með lagabreytingum um almennar íbúðir sem félags- og húsnæðismálaráðherra stóð fyrir og voru samþykktar á Alþingi í vor. Í daglegu tali munu íbúðirnar kallast Leiguheimili. Íbúðalánasjóður hefur umsjón með afgreiðslu stofnframlaga ríkisins en miðað við þá fjármuni sem þegar eru í ríkisfjármálaáætlun þá verða um 3.000 Leiguheimili reist á næstu 5 árum.
Til að geta sótt um Leiguheimili mega tekjur væntanlegs leigutaka ekki vera yfir meðaltekjum í tveimur lægstu tekjufimmtungunum en ekki má segja íbúum upp leigunni þó að tekjur heimilisins fari yfir hámarkið síðar. Þetta getur því hentað vel þeim sem glíma við háan húsnæðiskostnað og þurfa að komast í öruggt húsnæði til að geta lagt til hliðar og safnað fyrir útborgun í íbúð. Tekjumörkin fyrir eintakling í Leiguheimiliskerfinu eru í dag 395.750 kr. í mánaðartekjur en þegar um er að ræða hjón eða par í sambúð eru mörkin 554.083 kr. Fyrir hvert barn hækka mörkin um 98.917 kr. á mánuði. Þannig eru tekjumörkin fyrir einstakling með tvö börn 593.583 kr. og fyrir hjón/sambúðarfólk með fjögur börn 949.750 kr. Ný tekjumörk verða gefin út árlega.
Einum og hálfum milljarði kr. verður varið í stofnframlög ríkisins vegna byggingar Leiguheimila á árinu 2016. Íbúðalánasjóður er þegar farinn að fá umsóknir frá sveitarfélögum og húsnæðissjálfseignarstofnunum en fyrri umsóknarfrestur ársins er til 15. október nk. og síðari fresturinn er til og með 30. nóvember. Alls gætu því verið reistar íbúðir að verðmæti ríflega 8 milljarðar kr. með stuðningi þessa árs.