- Lánshæfismat Íbúðalánasjóðs staðfest. Matsfyrirtækin gera ráð fyrir stöðugum horfum.
- Ríflega fjórðungi minni uppgreiðslur. Úr 3,7 milljörðum í desember í 2,9 í janúar.
- Velta íbúðarbréfa jókst og var 10,4 milljarðar í janúar.
- Vanskil hafa minnkað mikið síðustu 12 mánuði. 6,9% lána hjá ÍLS eru nú í vanskilum.
Uppgreiðslur lána hjá Íbúðalánasjóði voru ríflega fjórðungi minni í janúar en mánuðinn á undan og námu 2,9 milljörðum samanborið við 3,7 milljarða í desember. Heildarvelta íbúðabréfa nam 10,4 milljörðum króna í janúar samanborið við 9,9 milljarða í desember 2015.
Þann 22. janúar staðfesti matsfyrirtækið Moody‘s lánshæfismat sitt Baa3 fyrir Íbúðalánasjóðs. Sama dag staðfesti Standard & Poor's lánshæfismat sitt BB/B til langs tíma. Bæði lánshæfismatsfyrirtækin gera ráð fyrir stöðugum horfum í lánshæfi Íbúðalánasjóðs.
Mun færri heimili og fyrirtæki í vanskilum
Í lok janúar nam fjárhæð vanskila útlána til einstaklinga 2,9 milljörðum króna og var undirliggjandi lánavirði 29,0 milljarðar króna eða um 5,7% útlána sjóðsins til einstaklinga. Heimili í vanskilum eru 1.408 eða 3,4% þeirra heimila sem eru með lán hjá Íbúðalánasjóði.
Hlutfall undirliggjandi lánavirðis lögaðila í vanskilum lækkaði í mánuðinum. Fjárhæð vanskila útlána til lögaðila nam 3,1 milljarði króna og nam undirliggjandi lánavirði 16,4 milljörðum króna. Tengjast því vanskil 11,3% lánafjárhæðar sjóðsins til lögaðila.
Minni vanskil og aukin gæði lánasafns ÍLS
Heildarfjárhæð vanskila nam 6,1 milljörðum króna, samanborið við 6,2 milljarða í árslok 2015. Vanskil ná samtals til 6,9% lánasafnsins, en sambærilegt hlutfall í janúar 2015 var 9,5%.
Greiðslur Íbúðalánasjóðs vegna íbúðabréfa og annarra skuldbindinga námu 3,9 milljörðum króna í janúar. Heildarútlán Íbúðalánasjóðs í janúar 2016 námu 266 milljónum króna, allt vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í desember 2015, 252 milljónum króna. Meðalfjárhæð almennra lána var 10,3 milljónir króna.
Ítarlegri umfjöllun má lesa hér í mánaðarskýrslu