Þann 2. nóvember síðastliðinn fagnaði Íbúðalánasjóður því að 60 ár eru liðin frá því að fyrsta opinbera íbúðalánið var gefið út árið 1955. Lánið sem var veitt til byggingar einbýlishúss í smáíbúðahverfinu, var að fjárhæð 50.000,- til 25 ára með 7% föstum vöxtum.
Afmælisdegi opinberra íbúðalána var fagnað með því að minnast sögunnar og horfa til framtíðar í arkitektúr og íbúðalausnum.
Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir stjórnarformaður Íbúðalánasjóðs flutti ávarp. Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra ávarpaði einnig samkomuna og opnaði nýja vefsíðu Íbúðalánasjóðs ásamt Hermanni Jónassyni forstjóra sjóðsins. Sýnt var brot úr kvikmyndinni Djöflaeyjan eftir Friðrik Þór Friðriksson og Einar Kárason las valda kafla úr bókum sínum um húsnæðismál fyrri tíma. Magnús Árni Skúlason hagfræðingur flutti erindið „Íslenski draumurinn – húsnæðislán í 60 ár“ og Ögmundur Skarphéðinsson arkitekt fjallaði um íbúðalausnir framtíðarinnar undir heitinu „Haldið ykkur fast – heljarstökk í íbúðahönnun“. Að lokum voru panelumræður þar sem Magnús Árni og Ögmundur svöruðu spurningum úr sal. Hér má nálgast myndbönd af erindum Magnúsar Árna Skúlasonar og Ögmundar Skarphéðinssonar.