Ríflega 30 tilboð bárust í sjö eignasöfn Íbúðalánasjóðs sem sett voru í sérstakt söluferli og auglýst í október. Frestur til að skila inn tilboðum rann út 6. nóvember og bárust tilboð í öll eignasöfnin sjö. Tilboðin voru gerð með fyrirvara um lokafjármögnun.
Fjögur hundruð íbúðir voru boðnar til sölu og eru þær staðsettar á Austurlandi, Norðurlandi, Vesturlandi, Suðurlandi, Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Samanlagt fasteignamat íbúðanna er um 6,5 milljarðar króna.
Verkefnisstjórn Íbúðalánasjóðs yfirfer nú tilboðin og upplýsingar um bjóðendur.
Á næstu dögum fá bjóðendur aðgang að ítarlegri upplýsingum um eignirnar í sérstöku gagnaherbergi og geta gert sína eigin áreiðanleikakönnun. Slík könnun kann að leiða fram atriði til hækkunar eða lækkunar á framkomið tilboðsverð. Lokatilboði án fyrirvara þarf að skila inn í síðasta lagi þann 22. desember.