Fjölmennt var á kynningarfundi Íbúðalánasjóðs fyrir áhugasama kaupendur að sjö fasteignasöfnum sjóðsins. Fundurinn var haldinn í húsakynnum Capacent við Ármúla og sóttu hann hátt í 100 manns. Á fundinum var farið yfir fasteignasöfnin og söluferli þeirra, en ferlið er í umsjón eignasviðs Íbúðalánasjóðs og unnið í samstarfi við Capacent og LOCAL lögmenn.
Íbúðalánasjóður hyggst selja 400 íbúðir úr eignasafni sjóðsins í sérstöku söluferli. Ferlið hefst formlega þann 17. október og þá geta væntanlegir kaupendur nálgast ítarlega upplýsingaskýrslu um söluferlið og eignirnar á heimasíðu Íbúðalánasjóðs.
Sjóðurinn gerir þá kröfu til væntanlegra kaupenda að þeir geri grein fyrir því hvernig þeir ætla að viðhalda útleigu íbúðanna.
Nánari upplýsingar um framvindu söluferlisins er að finna á heimasíðu sjóðsins www.ils.is. Þar má einnig finna glærukynningu frá kynningarfundinum.