Vanskilainnheimtu breytt til fyrra horfs
Á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs voru gerðar breytingar á reglum um vanskilainnheimtu, sem tóku gildi þann 1. febrúar síðastliðinn.
Frá og með 1. febrúar verður vanskilainnheimta Íbúðalánasjóðs því sem hér segir:
1. Greiðsluáskorun verður send tveimur og hálfum mánuði eftir fyrsta ógreidda gjalddaga. Var tímabundið fjórir og hálfur mánuður.
2. Nauðungarsölubeiðni verður send mánuði síðar, eða þremur og hálfum mánuði eftir fyrsta ógreidda gjalddaga, enda hafi birting greiðsluáskorunar tekist. Var tímabundið fimm og hálfur mánuður.
3. Afturköllun nauðungarsölubeiðni er heimil gegn greiðslu helmings vanskila. Tímabundið viðmið var þriðjungur vanskila.
Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 var frestur frá ógreiddum gjalddaga til nauðungarsölubeiðni lengdur, auk þess sem heimilt var að afturkalla uppboð gegn lægri greiðslu en áður var. Reynslan hefur sýnt að lengri frestir leiða til þess að mál eru orðin þyngri úrlausnar þegar lántakendur hafa samband. Vegna þessa var ákveðið að færa reglurnar til fyrra horfs.