Velferðarráðherra, Eygló Harðardóttir, hefur skipað Steinunni Valdísi Óskarsdóttur í stjórn Íbúðalánasjóðs í stað Kristrúnar.
Steinunn útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum við Sund 1986 og BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1992. Þá stundaði hún nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands 2006-2007.
Hún sat í borgarstjórn Reykjavíkur 1994-2007 og var borgarstjóri Reykjavíkur frá 2004 - 2006. Hún sat á Alþingi 2007 - 2010. Þá var hún varaforseti Alþingis og sat sem þingmaður á Evrópuráðsþinginu í Strassborg 2009 - 2010. Hún hefur starfað sem sérfræðingur í Innanríkisráðuneytinu frá 2011.
Steinunn hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum, m.a. setið í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur 1998-2004, þar af sem varaformaður 2002-2004. Hún sat í stjórn Lánatryggingasjóðs kvenna 1998-2004 og svo aftur 2011–2013, þá sem formaður. Hún var formaður almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins 2004-2006, sat í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 2002-2007, í stjórn Landsvirkjunar 2006-2007, í stjórn Faxaflóahafna 2006-2008 og í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar 2006-2008.