Þann 30. ágúst var birtur samandreginn árshlutareikningur Íbúðalánasjóðs fyrir fyrri helming ársins 2013. Samkvæmt árshlutareikningnum var rekstrarniðurstaða tímabilsins neikvæð sem nam 2.978 milljónum króna. Til samanburðar var tap sjóðsins 3.109 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2012. Eigið fé Íbúðalánasjóðs í lok tímabilsins var 11.720 milljónir samanborið við 14.699 milljónir í árslok 2012. Eiginfjárhlutfall sjóðsins sem reiknað er samkvæmt ákvæðum í reglugerð nr. 544/2004 um Íbúðalánasjóð er 2,5% en var 3,2% í upphafi árs. Hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0% og viðræður við stjórnvöld miða að því að uppfylla ákvæði reglugerðar.
Ávöxtunarkrafa allra flokka íbúðabréfa lækkaði í ágúst. Nam lækkunin 6-38 punktum. Það sem af er ári hefur ávöxtunarkrafa HFF34 hækkað um 0,12% og HFF44 um 0,13%. Krafa HFF14 hefur staðið í stað og krafa HFF24 hefur lækkað um 0,14% á sama tímabili. Heildarvelta íbúðabréfa nam 28,4 milljörðum króna í ágúst samanborið við 30,4 milljarða í júlí 2013. Greiðslur Íbúðalánasjóðs vegna íbúðabréfa og annarra skuldbindinga námu 10,6 milljörðum króna í ágúst. Uppgreiðslur námu 1,4 milljörðum króna.
Þróun vanskila útlána
Áframhaldandi fækkun var á fjölda heimila í vanskilum í ágústmánuði. Það sem af er ári hefur heimilum í vanskilum fækkað um tæp 10% eða um 420 heimili. Hlutfall undirliggjandi lánavirðis einstaklinga í vanskilum heldur einnig áfram að lækka. Í lok ágúst nam fjárhæð vanskila útlána til einstaklinga 4,7 milljörðum króna og var undirliggjandi lánavirði 81,5 milljarðar króna eða um 12,43% útlána sjóðsins til einstaklinga. Þetta samsvarar 0,45% lækkun frá fyrri mánuði. Heimili í vanskilum eru 4.291 og þar af eru 638 heimili með frystingu á lánum sínum. Alls voru 8,59% þeirra heimila sem eru með fasteignalán sín hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok ágúst 2013. Fjárhæð vanskila útlána til lögaðila nam alls 4,1 milljarði króna og nam undirliggjandi lánavirði 31,7 milljörðum króna. Tengjast því vanskil 21,33% lánafjárhæðar sjóðsins til lögaðila, sem samsvarar 0,38% hækkun frá fyrri mánuði. Vanskil eða frystingar ná samtals til 14,08% lánasafnsins, en sambærilegt hlutfall í ágúst 2012 nam 15,56%.
Vanskil teljast hér lán í vanskilum umfram 90 daga vanskil og lán sem eru í frystingu.
Eignasafnið
Í lok ágúst átti Íbúðalánasjóður 2.575 fullnustueignir um land allt og hefur þeim fækkað um 3 eignir frá því í lok júlímánaðar.
Í útleigu voru 1.195 íbúðir um land allt. Langflestar þeirra eru leigðar til fjölskyldna og einstaklinga sem dvöldu í eignunum þegar Íbúðalánasjóður eignaðist þær. Sjóðurinn hefur heimild til að leigja út íbúðir í almennri útleigu á þeim svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði. Íbúðalánasjóður hefur á rúmu ári fjölgað leiguíbúðum um 320 með því að leigja út íbúðir sem áður voru tómar.
Mikil áhersla er lögð á að bjóða til útleigu allar leiguhæfar íbúðir sjóðsins sem eru tómar. Þannig hefur sjóðurinn nýlega auglýst 30 íbúðir til leigu og í lok september verða auglýstar 35-40 tómar íbúðir til viðbótar til leigu. Þá er unnið að því að undirbúa til útleigu um 60 tómar eignir sem verða auglýstar í október og nóvember.
Það sem af er árinu 2013 hefur sala eigna gengið betur en á árinu 2012. Frá síðustu áramótum og til enda ágústmánaðar hefur Íbúðalánasjóður selt 141 fasteign sem er meira en allt árið í fyrra, en á sama tímabili 2012 seldi sjóðurinn 93 eignir. Þá hefur Íbúðalánasjóður selt 716 eignir frá ársbyrjun 2008. Í sölumeðferð voru 882 eignir, annað hvort komnar í sölu eða unnið er að söluskráningu þeirra. Þá var 281 eign af fullnustueignum sjóðsins óíbúðarhæf en 210 þeirra eru á byggingarstigi og því ófullgerðar. Í töflu hér að neðan er yfirlit um staðsetningu eigna flokkað eftir landshlutum og nýtingu/ráðstöfun þeirra.
Allar fasteignasölur á landinu geta tekið eignir Íbúðalánasjóðs í sölumeðferð en í gildi er samstarfssamningur við Félag fasteignasala um verklag við sölu eigna sjóðsins. Eignir sjóðsins eru leigðar út á markaðsverði og er miðað við sambærilegar eignir eftir staðsetningu, stærð, aldri o.fl..
Af þeim 2.575 eignum sem Íbúðalánasjóður átti í lok ágúst hefur 2.114 eignum verið ráðstafað í leigu, sölumeðferð eða annað. Þá beið 461 eign frekari greiningar. Margar þeirra eru á svæðum þar sem nokkurt offramboð er af eignum til sölu og/eða leigu.