Heildarútlán Íbúðalánasjóðs námu 980 milljónum króna í desember en þar af voru 940 milljónir króna vegna almennra lána. Til samanburðar námu almenn útlán í desember 2011 um 1,1 milljarði króna. Meðalfjárhæð almennra lána var 10,3 milljónir króna. Heildarfjárhæð almennra lána á árinu 2012 er samtals 12,9 milljarðar króna en var 21,5 milljarðar króna á árinu 2011.
Alls veitti Íbúðalánasjóður 1.314 almenn íbúðalán á árinu 2012 í samanburði við 2.153 lán árið 2011.
Ávöxtunarkrafa flokka íbúðabréfa HFF14, HFF24 og HFF44 lækkaði í desember. Nam lækkunin 6-22 punktum. Þá stóð ávöxtunarkrafa flokks HFF34 í stað. Á árinu 2012 hefur ávöxtunarkrafa HFF14 hækkað um 6,39%, krafa HFF24 um 0,60% og krafa HFF44 um 0,01%. Ávöxtunarkrafa HFF34 lækkaði um 0,14% á árinu.
Heildarvelta íbúðabréfa nam 23,3 milljörðum króna í desember samanborið við 61,5 milljarða í nóvember 2012. Heildarvelta íbúðabréfa á árinu 2012 nam 627 milljörðum króna samanborið við 685 milljarða króna árið 2011.
Greiðslur Íbúðalánasjóðs vegna íbúðabréfa og annarra skuldbindinga námu 11,8 milljörðum króna í desember. Uppgreiðslur námu um 1,3 milljörðum króna.
Þróun vanskila útlána
Í lok ársins 2012 hafði hlutfall lána í vanskilum lækkað fimm mánuði í röð frá því að vanskil í lánasafni Íbúðalánasjóðs náðu hámarki í júlí síðastliðnum. Þetta er ánægjuleg þróun og vonandi vísbending um það sem koma skal.
Í lok desember 2012 nam fjárhæð vanskila einstaklinga 4,9 milljörðum króna og er undirliggjandi lánavirði 89,4 milljarðar króna eða um 13,5% útlána sjóðsins til einstaklinga. Þetta samsvarar 0,1% lækkun frá fyrra mánuði og er undirliggjandi hlutfall lánafjárhæðar í vanskilum í lok desember 0,3% hærra en sama hlutfall í desember 2011. Heimili í vanskilum eru 4.733 og þar af eru 619 heimili með frystingu á lánum sínum. Alls voru því 9,3% þeirra heimila sem eru með fasteignalán sín hjá Íbúðalánasjóði með lánin í vanskilum í lok desember 2012. Það er 0,1% lægra hlutfall heimila en í lok árs 2011.
Í lok desember nam fjárhæð vanskila útlána til lögaðila alls 2,6 milljörðum króna og nam undirliggjandi lánavirði 30,1 milljarði króna. Tengjast því vanskil um 20,3% lánafjárhæðar sjóðsins til lögaðila, sem samsvarar 0,3% lækkun frá fyrri mánuði og er 0,2% lægra hlutfall en í lok árs 2011.
Í lok desember náðu vanskil einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu til 2.622 heimila og vanskil einstaklinga utan höfuðborgarsvæðisins náðu til 2.111 heimila. Sé litið til undirliggjandi lánafjárhæðar eru 12,1% lána einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu í vanskilum og 16,1% lána einstaklinga utan höfuðborgarsvæðisins. Vanskil eða frystingar ná samtals til 14,7% lánasafnsins, en sambærilegt hlutfall í desember 2011 nam 14,6%.
Vanskil teljast hér lán í vanskilum umfram 90 daga vanskil og lán sem eru í frystingu.
Eignasafnið
Í lok árs 2012 átti Íbúðalánasjóður 2.228 fullnustueignir um land allt og hefur þeim fjölgað um 35 frá fyrra mánuði. Rétt rúmlega helmingur fasteigna sjóðsins var áður í eigu byggingaraðila, fyrirtækja í leiguíbúðarrekstri eða annarra lögaðila eða samtals 1.145 eignir.
Á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Suðurlandi á Íbúðalánasjóður 1.538 eignir, þar af 743 á Suðurnesjum. Á Austurlandi og Norðurlandi eystra á sjóðurinn 350 eignir, þar af 224 á Austurlandi.
Þann 31. desember 2012 voru 903 íbúðir í útleigu um land allt. Þá voru 325 íbúðir óíbúðarhæfar annað hvort vegna þess að þær eru á byggingarstigi og því ekki fullbúnar eða vegna aldurs og ástands. Í sölumeðferð voru 769 íbúðir.
Stærstur hluti íbúða sem eru í útleigu eru leigðar til fjölskyldna og einstaklinga sem dvöldu í eignunum þegar Íbúðalánasjóður eignaðist þær. Sjóðurinn hefur einnig heimild til að leigja út eignir í almennri útleigu á þeim svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði. Þær íbúðir sem leigðar eru út til almennrar útleigu eru auglýstar til leigu á helstu fasteignavefsíðum landsins. Hægt er að skoða úthlutunarreglur á heimasíðu Íbúðalánasjóðs. Eignir sjóðsins eru leigðar út á markaðsverði og er miðað við sambærilegar eignir eftir staðsetningu, stærð, aldri og fleiru.
Allar fasteignasölur á landinu geta tekið eignir sjóðsins í sölumeðferð en í gildi er samstarfssamningur við Félag fasteignasala um verklag við sölu eigna sjóðsins.
Af þeim 2.228 eignum sem Íbúðalánasjóður átti í árslok 2012 hefur 1.730 eignum verið ráðstafað í útleigu, sölumeðferð eða annað. Þá biðu 498 eignir frekari greiningar. Margar þeirra eru á svæðum þar sem er talsvert offramboð af eignum til sölu og/eða leigu.
Íbúðalánasjóður hefur selt 575 íbúðir frá áramótum 2007/2008.