Sala ÍLS á 356 íbúðum í opnu söluferli um land allt hefur jákvæð áhrif á afkomu sjóðsins:
- Hátt fasteignaverð hjálpar Íbúðalánasjóði
- Jákvæð áhrif á afkomu sjóðsins nema 900 milljónum króna
Stærsta einstaka opna söluferlið í sögu Íbúðalánasjóðs er nú yfirstaðið með undirritun kaupsamninga síðustu daga. Um er að ræða 356 íbúðir um land allt sem auglýstar voru í opnu söluferli og fara þær að stóru leyti til leigufélaga sem hyggjast leigja þær út áfram. Heildarsöluverðmæti íbúðanna nemur 6.414 milljónum króna sem er 864 milljónum króna yfir skráðu virði þeirra í bókum sjóðsins. Nettóáhrifin á rekstur Íbúðalánasjóðs í ár nema í kringum 900 milljónum króna. Þá mun salan draga umtalsvert úr rekstarkostnaði sjóðsins þar sem umsýsla og viðhald vegna íbúðanna 356 fellur niður. Sjóðurinn á nú um 900 íbúðir og stefnir á að selja meirihluta þeirra fyrir lok ársins.
Íbúðirnar verið í eigu sjóðsins í allt að átta ár
Fjórir aðilar kaupa íbúðirnar í samtals 11 eignasöfnum og í öllum tilfellum eru það þau fyrirtæki sem áttu hæstu tilboðin. Aðallega eru þetta íbúðir sem lent höfðu í fangi Íbúðalánasjóðs vegna efnahagshrunsins, þær elstu hafa verið í eigu sjóðsins í um átta ár. Um er að ræða 106 íbúðir á Austurlandi, 21 íbúð á Norðurlandi, 6 íbúðir á Vestfjörðum, 27 íbúðir á Vesturlandi, 108 íbúðir á Suðurnesjum og 88 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu.
Opið söluferli, þar sem allir áhugasamir kaupendur gátu komið að, hófst í desember síðastliðnum. Um hundrað aðilar kynntu sér söluferlið og rúmlega fjörutíu tilboð bárust. Alls voru boðnar til sölu eignir í 15 eignasöfnum en tilboðum í fjögur þeirra var hafnað þar sem þau reyndust vera langt undir matsverði Íbúðalánasjóðs.
Skipuð var þriggja manna verkefnisstjórn sem stýrði söluferlinu og mati á tilboðum. Formaður hennar er Ágúst Kr. Björnsson forstöðumaður fasteigna ÍLS en í henni sitja jafnframt Gunnhildur Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs ÍLS og óháður fulltrúi sem kom frá LOCAL Lögmönnum, Guðrún Bergsteinsdóttir hdl.
Eftirtaldir áttu hæstu tilboðin og hafa skrifað undir kaupsamning:
Leigufélagið Heimavellir slhf. | 139 eignir | 1.829 m.kr. |
BK eignir hf. | 153 eignir | 3.740 m.kr. |
Kurr ehf. | 31 eign | 369 m.kr. |
Leigufélagið Stefnir slhf. | 33 eignir | 476 m.kr. |
Eignir úr pökkum þar sem tilboðum var ekki tekið seldar einstaklingum
Unnið verður áfram að sölu þeirra eigna sem ekki fengust nógu há tilboð í í samvinnu við fasteignasala á viðkomandi stað. Mikill meirihluti af sölu fasteigna sjóðsins undanfarin ár hefur verið til einstaklinga og fer fram í gegnum samstarf sjóðsins við félag fasteignasala. Nokkrar íbúðanna sem voru í þessum fjórum eignasöfnum, sem tekið var tekið tilboðum í, hafa þegar á undanförnum vikum selst til einstaklinga á hærra verði en gangvirðismat þeirra sagði til um. Gangvirðismat er mat löggildra fasteignasala á söluvirði eigna og fer það eftir markaðsaðstæðum á hverju svæði.
Hæsta söluverðið í Reykjavík
Margar íbúðanna í eignasöfnunum fimmtán hafa verið til sölu á almennum markaði undanfarin ár en ekki höfðu borist ásættanleg tilboð í þær fram að þeim tíma sem pakkasalan hófst. Tilgangurinn með pakkasölunni nú var að losa um þessar eignir og um leið að stuðla að auknu framboði leiguíbúða á markaðnum en í mörgum tilfellum er um að ræða íbúðir í sömu blokk eða götu. Íbúðirnar eru víðsvegar um landið en hæsta söluverðið reyndist vera í Reykjavík þar sem það var að meðaltali 24,6% yfir bókfærðu virði eignanna.
Eykur vaxtatekjur sjóðsins og lækkar rekstrarkostnað
Sala eignanna í söfnunum ellefu hefur verulega jákvæð áhrif á afkomu Íbúðalánasjóðs því söluverð þeirra er vel yfir skráðu virði eignanna í bókum sjóðsins. Jafnframt lækkar rekstrarkostnaður en beinn kostnaður við umsjón, eftirlit og rekstur þessara eigna nemur um 180-200 milljónum kr. á ári. Þá mun kaupverðið, samtals 6,4 milljarðar króna, sem sjóðurinn var með bundið í eignunum styðja við jákvæðan vaxtamun sjóðsins sem numið gæti allt að 250 milljónum króna á ársgrundvelli.
Fasteignum í eigu Íbúðalánasjóðs fjölgaði mikið eftir hrun fjármálakerfisins og átti sjóðurinn þegar mest var samtals 2.600 eignir. Frá upphafi árs 2008 hefur Íbúðalánasjóður eignast um 4.350 eignir en á sama tíma selt 3.159 eignir fyrir um 47,8 milljarða kr.